Um Einingu sérfræðiþjónustu
Eining sérfræðiþjónusta fyrir foreldra/forsjáraðila skólabarna er hugmyndasmíði mín sem ég hef þróað meðfram reynslu og þekkingu á viðkomandi málaflokki. Gildi Einingar sérfræðiþjónustu er samheldni, jafnræði og vellíðan. Ég lít svo á að með samheldni þeirra sem koma að velferð barna og að veita börnum jafnræði sem tekur mið af þroska þeirra eflum við hvert barn til menntunar með vellíðan þess að leiðarljósi. Farsæld skólabarns hjá Effs er ávallt í fyrirrúmi og þjónustan er byggð á faglegri og fyrsta flokks þjónustu við foreldra/forsjáðaðila barna.
Sigríður Matthildur Guðjohnsen, stofnandi og framkvæmdastjóri
Aðeins um mig
Heil og sæl, ég Sigga Matta er móðir með góða og krefjandi reynslu af uppeldi barna og barns með röskun (ADHD). Því þekki ég vel til þeirra áskorana í umhverfinu sem geta mætt barni og foreldrum. Reynsla mín og fagmenntun hefur gefið mér þekkingu og mikla innsýn í stöðu barna, þjónustuþarfir og lausnir fyrir börn sem glíma við hegðunar- náms- eða félagslega erfiðleika heima, í skólanum eða tómstundum.
Starfsreynslan hefur snúið að mestu leiti að börnum, meðal annars í grunnskóla við ráðgjöf og atferlismótun. Þar var ég foreldrum, kennurum og börnum innan handa við að móta og skapa umhverfi fyrir börnin sem kom á móts við þeirra stöðu og þarfir. Einnig hef ég reynslu af verkefnastjórnun og sem sérfræðingur við greiningu og útgáfu rekstrarleyfa vegna þjónustu við fatlað fólk og börn. Að auki hef ég tekið þátt í stefnumótun og uppbyggingu nýrrar stofnunar, starfað við formennsku fagstéttar, sem þjónustustjóri félagsþjónustu sveitarfélaga, sviðstjóri í skóla á framhaldsskólastigi og ýmis störf sem snúa að íþróttum barna. Mín víðtæka starfsreynsla hefur dýpkað enn frekar þekkingu og reynslu mína sem nýtist í að leysa þau verkefni sem bíða.
Ég er með MA gráða í fötlunarfræði frá Háskóla Íslands sem lítur að réttindum fatlaðs fólks og félags- menningar og pólitískri stöðu þeirra. Í grunninn er ég með BA í uppeldis- og menntunarfræði frá HÍ þar sem ég lagði áherslu á seiglu og líðan barna í skóla og frístundum þá sér í lagi barna með ADHD. Einnig hef ég sótt ýmis hagnýt námskeið eins og Stjórnsýslurétt - ríkis og sveitarfélaga, Teymið mitt og ég og Verkefnastjórnun - verkáætlun hjá Endurmenntun Háskóla Ísland.