28. janúar 2025

Samheldni foreldra og kennara

Mikilvægt er að samheldni ríki á milli foreldra og kennara skólabarna og ekki síst barna með raskanir eða ADHD sem skarast oft á tíðum við aðrar raskanir. Kennarar og foreldrar verða að leitast við að skapa umhverfi sem stuðlar að opinni samræðu og skapa sameiginlegan grundvöll sem leggur áherslu á gagnkvæma virðingu og skilning á innsýn og sjónarmið hvor annars. Foreldrar standa oft á tíðum í verulega erfiðu uppeldishlutverki sem ber að virða og gera ráð fyrir að foreldrar þekki börnin sín best, bæði styrkleika og veikleika þeirra. Eins eru kennarar sérfræðingar í sínu fagi sem ber að virða og veita þeim hjálp, samvinnu og sanngirni. En þrátt fyrir besta ásetning koma upp áskoranir sem geta hindrað skilvirk samskipti og samheldni milli foreldra og kennara.

 Hindranir geta til að mynda falið í sér:

1.     Skort á skilningi eða þekkingu: sem getur valdið ranghugmyndum um hvað í raun felst í því að vera með viðkomandi röskun eða ADHD.

2.     Mismunandi samskiptamáta – sem getur leitt til misskilnings eða mistúlkunar á áhyggjum eða tillögum.

3.     Tilfinningaleg viðbrögð – foreldrar eða kennarar taka erfiðleikum barna persónulega í stað þess að tengja þá við einkenni röskunar og umhverfið.

Til að draga úr mögulegum hindrunum er nauðsynlegt að báðir aðilar taki þátt í virkri hlustun, leiti skýringa þegar þörf krefur og temji sér samúð gagnvart áhyggjum hvor annars. Samheldni foreldra og kennara og gott samband kennara og nemenda getur skipt sköpum fyrir heildrænan þroska og velferð nemanda í skóla. Með því að forgangsraða samstarfi, halda opnum og áframhaldandi samræðum og sigla áskorunum með samkennd geta foreldrar og kennarar ræktað stuðningsnet sem eflir enn frekar þroska og árangur nemenda. Nauðsynlegt er að móta skólaumhverfið að þörfum nemanda í samvinnu við foreldra og nemanda (ef við á) með því að afla þekkinga á einkennum raskana og birtingarmyndum fötlunar hjá viðkomandi barni. 

Hér á eftir er gróf lýsing á birtingamynd röskunar á sjálfstjórn sem meðal annars getur einkennt hegðun einstaklings með ADHD.

 ADHD - taugaþroskaröskun og sjálfstjórn

Athyglisbrestur með ofvirkni (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder, ADHD)  er líffræðileg taugaþroskaröskun sem hefur meðal annars að gera með röskun í stýrifærni (e. executive function, EF) heilans. Því ber að varast að líta svo á að vandi barns með ADHD sé drifin áfram af viljastyrk þess, börn velja ekki þá erfiðleika sem fylgja ADHD. Stýrifærni hjá barni með ADHD getur verið allt að 30% eftir á í þroska, miðað við líffræðilegan aldur barns. Þetta hefur áhrif á sjálfstjórn einstaklings við ýmis dagleg verkefni og liggur það meðal annars í eftirtöldum þáttum: Sjálfsbjargarviðleitni - erfiðleikar með að upplifa fullnægu, að víkja fyrir eigin hagsmunum og löngunum annarra. Tímablinda - erfiðleikar með tímastjórnun og skipulag yfir tíma til að ná markmiðum sínum eða framkvæma tilsett verkefni á tilsettum tíma. Innri hvatning - erfiðleikar með að virkja og halda hvatningu við ,,leiðinleg“, þreytandi, áreynslu- eða langvinn verkefni þar sem ekki liggur fyrir áhugi á innihaldi verkefnis eða ekki von á tafarlausri endurgjöf. Sjálfskipulag - erfiðleikar við að leysa vandamál, skipuleggja persónulegt rými eins og borð, skápa, námsefni o.s.fr. og vinna á áhrifaríkan og skilvirkan hátt. Gleyma auðveldlega fyrirmælum eða fyrirlögðu verklagi. Augljósir erfiðleikar með skipulag verkefna og með verkefni sem þarfnast vinnsluminnis og umhugsunar hvað varðar lausnir. Sjálfstjórn tilfinninga - erfiðleikar með hömlun á tjáningu hvatvísra tilfinninga sem og viðbrögð við tilfinningalega ögrandi atburðum. Tilhneiging til bæði jákvæðra og neikvæðra tilfinningaupphlaupa og meiri en venjuleg óþolinmæði, gremja eða reiði.

Skólinn og áskoranir

Með tilliti til þessa mæta foreldrum og starfsfólki ýmsar áskoranir sem þarf að hafa í huga við mótun umhverfis og verkefna fyrir viðkomandi einstaklinga. Röskun á sjálfstjórn er ekki til marks um greind eða viljastyrk barns, heldur endurspeglar taugaþroska sem kallar á ýmsar áskoranir við uppeldi. Því er brýnt að foreldrar og kennarar búi yfir djúpum skilningi á því sem liggur á bak við röskun hvers barns sem endurspeglast í einkennum og birtingarmyndum hegðunar. Með því sköpum við grunndvöll til þess að móta ákjósanlegt námsumhverfi fyrir barnið. Í aðalnámskrá grunnskóla segir meðal annars að allir nemendur eiga rétt á að stunda nám við sitt hæfi og í 2 gr. laga um grunnskóla nr. 19/2008 er lögð áhersla á að námsumhverfi sé hvetjandi þar sem nemandi finnur til öryggis og fær notið hæfileika sinna. Að því sögðu er mikilvægt að allir sem koma að almennri þjónustu við barn með röskun og eða ADHD sameinist og vinni í samheldni að því að mæta þörfum þess þannig að barnið hafi kost á því að þroskast og dafna á eigin forsendum.

Sigríður Matthildur Guðjohnsen, framkvæmdastjóri effs.